<$BlogRSDURL$>

fimmtudagur, nóvember 18, 2004

Annars er ég líka í skáldaham þessa dagana. Fékk eikkvað inspiration síðustu helgi (frá dularfulla skáldinu) og hefur ansi margt bundið málið verið blaðfest síðan. Held það sé líka kominn tími á að semja tónlist. Fékk þær gleðifréttir í vikunni að pianó sé væntanlegt á heimilið, en Herdís vinkona ætlar að koma með píanóið sitt þegar hún flytur inn um mánaðamótin. Og maðr fær nú kannski að slá nokkra tóna.
Viðraði í gær djassbarshugmyndina mína við landsþekktan tónlistarmann, sem leist hreinlega ekki svo illa á. Og komu meira að segja upp tillögur að húsnæði fyrir búlluna...

En stórhugurinn ætti ef til vill að halda sig við lögskýringar í bili, prófin óðum að nálgast...

Skútan siglir seglum þöndum
strengir dúk með styrkum böndum
Bárur bera bátinn höndum
berist vindur meðfram ströndum...

Bugast ei þó blási mót
byrinn brátt hún finnur
Heldur sig við hafsins rót
heldur uns hún vinnur...

o.s.frv...

Er í arrogant skapi þessa dagana. Fékk eitthvað nóg af bjánalegu fólki og gekk meira að segja svo langt að kalla einhvern aumingja (þá er nú langt gengið á mitt umburðarlyndi). Getur fólk ekki bara tekið ábyrgð á sjálfu sér? Ef það getur ekki allavega komið hreint og beint fram og verið almennilegt, getur það bara líka verið einhversstaðar annarsstaðar en í mínu lífi, svo ég minnist nú ekki á beisikk kurteisi...

Nokkur velvalin orð:
“I am two women: One wants to have all the joy, passion and adventure that life can give. The other wants to be a slave to routine, to family life, to the things that can be planned and achieved...both of us living in the same body and doing battle with each other.” –Paulo Coelho.

miðvikudagur, nóvember 10, 2004

Blæs út eins og blaðra þessa dagana. Held að líffærin séu komin í verkfall (allavega brunaliðið), eða hef ég kannski verið eikkvað óhófsöm í sælgætissukkinu undanfarið...? Úff, kominn tími á chicken noodles dæettinn...

fimmtudagur, nóvember 04, 2004

Vinna í kvöld og við heldur betur mössuðum´etta, bara þrjú á vaktinni, ég og neminn í eldhúsinu, og Drífan í salnum. Það sem gerði kvöldið líka ennþá meira tjallensing var að matseðlinum hefur verið breytt síðan ég var að vinna síðast, svo maðr þurfti kannski örlítið að impróvisera. Allir gestir voða sáttir, og ég held það styttist óðfluga í að ég fari að opna restaurantinn minn...
En fyrst ætla ég að minnsta kosti að losna við þetta skelfilega kvef. Var orðin pínu sljó í gærkvöld, en vaknaði svo í morgun stúttfull í öllum vitum. Snýti brátt frá mér öllu viti með þessu áframhaldi. Og hóstandi líka þessi ósköp. Get ekki reykt, svo slæmt er ástandið. Drífan reyndi aldeilis að telja mér trú um að te með sítrónu og Cayenne pipar væri besta remmedían. Bauðst til að útbúa mér slíkt, til að lina þjáningarnar. Spurði hana á móti, skelfingu lostin, hvar í ósköpunum hún hefði misskilið þvílíkt og annað eins. Þakkaði henni þó hugulsemina, en blandaði mér einn heitan sítrónute með miklu hunangi (sem minnti mig nú bara á okkur Vicky, sitjandi útí porti útá Krít, þambandi enska te-ið hennar – gudd tæms), hef heyrt því hvíslað að það geri manni gott í þessum hremmingum. Skiptir þó kannski ekki öllu máli hvort það virki svona raunvísindalega séð, heldur er það bara svo að ef maður trúir að það virki – þá er bara mjög líklegt að það geri það (itts oll abát konvinsing jorself).

Heyrði í karli föður mínum í kvöld, en hann ætlar að koma á morgun og fylla frystinn minn af fiski. Spurði hann hvort hann vildi ekki vera í hádegismat, en hann frábað sér það, kominn í aðhald sko. Á fullu í ræktinni sko. Og sixpakkinn alveg að gerast, sko. Hann er nú bara töff hann pabbi. En eitt af því fyrsta sem hann tilkynnti mér þegar hann tók á móti mér á flugvellinum í fyrra var, að hann væri búinn að fá sér krossara. Sko.

Svo er mamma að koma heim á morgun eftir vikudvöl í Póllandi með hinum gellunum. Stóð nú ekki alveg á sama þegar ég fékk frá henni smess í vikunni um að hún væri í Auschwitz. Fannst það eitthvað krípí, eitt augnablik. En hún er semsagt að koma á morgun og ég hlakka til að heyra ferðasöguna, en hlakka samt ekki eins mikið til að missa afnotin af bílnum hennar. Það er bara einhvernveginn ekki alveg að fúnkera nógu vel að vera hjólandi í rokinu og rigningunni...

Voðalega er málbeinið laust á mér, verð að koma mér í háttinn....fyrir löngu!

Dreymi ykkur vel og fallega...

þriðjudagur, nóvember 02, 2004

Jökullinn farinn að jóðla áný, og enginn kippir sér lengur upp við það. Fyrstu viðbrögð voru nú samt að stökkva af stað með kameruna, eins og síðast þegar Hekla gaus. Óðum þá í ösku upp á fjallið við hliðina, sem var nú bara æði og varla lýsandi í orðum.

Öllu merkilegra er að ég er komin í heila tuttugu skvermetra í viðbót, og alveg að tapa mér í víðáttunni. Hvað Á ég að gera við allt þetta speis? Held ég þurfi að fá mér innanhúsarkítekt, svei mér þá. Á fullu að færa til húsgögn, en þau liggja nú á víð og dreif um gólfin (eða slétturnar öllu heldur). En nú væri ekki slæmt að hafa stóran og sterkan karlmann við hendina, til að halda undir...

Anný, dansandi á sléttunni, með skápinn í annarri og rúmið í hinni... Í dag er sko BARA gaman að vera til....

mánudagur, nóvember 01, 2004

Kominn mánudagur, og ég var aldeilis að fá gleðifréttir: ÉG NÁÐI PRÓFINU!!! Og bara vel. Svo nú er ég formlega búin með Inngang að lögfræði, sem er einn af þremur kúrsum á þessari önn. Og ég nú aldeilis komin með mótiveisjónið aftur (sem datt eikkvað niður hjá mér í síðustu viku). Málið nú að halda haus og taka áðí á endasprettinum...

Forsetakosningar í Bandaríkjunum, verður fróðlegt að sjá hvernig útkoman verður. Ætli fréttir á næstu vikum verði uppfullar af öðrum eins skemmtiatriðum eins og í þeim síðustu? En talandi um. Horfði á Oprah á laugardaginn (af einhverjum óskiljanlegum – en ekki slæmum – ástæðum var stöðtvö órugluð um helgina). Og þar kom fram að 40 milljónir kvenna hafi ekki kosið í síðustu forsetakosningum, sögðu að kosningar og þess háttar kæmu þeim bara yfirhöfuð ekki við! Ég átti bara ekki orð. Er ekki nógu stutt síðan að aðskilnaður var í lögum þar í landi? Veit þetta fólk virkilega ekki að fólk fórnaði lífi sínu fyrir þau réttindi sem það býr við í dag? Hefur það yfirhöfuð einhverja hugmynd um hvernig ástandið er víða í heiminum? Eredda ekki bara soldið beisikk? Hefði nú kannski haldið það, en svona veit maður lítið.

Annars gerði ég nú eitthvað fleira en að hneykslast yfir sjónvarpinu um helgina. Hitti fyrrum vinnufélagana á laugardagskvöldið, sem var alveg svakalega skemmtilegt. Fórum út að borða og svo var Guðrúnin svo yndisleg að bjóða okkur heim til sín á eftir. Tókum á ýmsu, oggulítið á þjóðfélagsmálunum, og settumst aðeins í dómarasætin og dæmdum mann og annan.

En eins og áður sagði er kominn mánudagur, strembin vika framundan og á nógu að taka. Svo þýðir ekki neinu hangsi. Mál málanna; “Eðli málsins” (þetta er svo skemmtilegt allt saman).

Lifið heil...

Og enn og aftur ÉG NÁÐI, ÉG NÁÐI !!!!!!
Og allir saman nú JIBBÍÍÍÍÍÍÍ........

This page is powered by Blogger. Isn't yours?