<$BlogRSDURL$>

þriðjudagur, september 28, 2004

Draugar fortíðar ákváðu aldeilis að banka upp á um helgina. Sem varð náttlega til þess að einbeitinguna skorti örlítið við lesturinn.
Var svo sem ekki allagaleg helgin því Ásta nágrannavinkona bankaði líka upp á á laugardagskvöldið og bauð mér í partí til sín, en vinnufélagar hennar voru þar saman komnir. Og þar var setið að sumbli og söng svo ég sló á nokkra gítarstrengi með þeim. Sem var nú bara gaman :)

En um helgina fékk ég líka leiðindafréttir...
Í sumar fékk ég þær sorglegu fréttir að Ilias vinur minn á Krít (sem ég hjálpaði við að opna restaurantinn) hefði dáið. Og um helgina fékk ég svo þær sorglegu fréttir þar úr landi að fyrrum yndislegi leigusalinn minn og nágranni hefði dottið niður af húsþaki og dáið. Tveir yndislegir menn. Og ég get aðeins verið þakklát því að hafa kynnst svona góðu fólki.

Og hörmungarnar halda áfram, því þegar ég fór út í morgunn sá ég mér til mikillar skelfingar að nágrannar mínir hér hafa nú gjörsamlega gengið af göflunum. Voru í óða önn að mála húsið sitt, sem er nú alveg gott og blessað og svo sem alveg kominn tími til. En SKÆRGULT!!! Hvurnig dettur fólki svona í hug? Stóð fyrir utan í dágóða stund, slegin yfir þessu og gapti af undran... En stoltið skein úr andlitum hryðjuverkamannanna...

miðvikudagur, september 08, 2004

Það er aldeilis meira en að segja það að vakna snemma á morgnana og mæta í tíma klukkan átta. Hefur einhvernveginn aldrei verið mín sterkasta hlið að koma mér frammúr á svo ókristilegaum tíma. Vil meina að bio-klukkan í mér sé eitthvað brengluð, frekar en nokkuð annað. Sömu stríðsátökin á hverjum morgni milli hins óvæga vekjara og minnar þrjósku sifju, sem virðist alltaf vilja hafa rétt fyrir sér svo snemma dags. Er farin að huga að nýjum uppfinningum: Koffín í æð sem fer átómatískt af stað klukkan 7:15.
En allavega, slefaðist í tíma og orðin miklu fróðari um stjórnarskránna og túlkun hennar fyrir vikið. Lenti reyndar á spjalli við eina í pásunni sem er að taka innganginn og almennu lögfræðina í 3 SINN!!! Vægast sagt mikil hughreysting í því, hmm... Stefni bara að því að vera á meðal þess mikla minnihluta sem kemst áfram. “Skipulag, þrautsegja og þolinmæði”, einkunnarorðin mín þetta árið (en þeir sem þekkja mig vita það nú sennilegast að þetta tvennt síðarnefnda hefur nú aldrei átt sérstaklega við mig).

Jæja, komið gott af slugsi...

mánudagur, september 06, 2004

Tók mér aldeilis frí frá skrifum í sumar, aldeilis steinhissa á því að sé ekki búið að henda mér héðan út. Já, týndi mér all alvarlega í góða veðrinu (sem hefur nú ekki vantað síðkastið), og búin að rasa soldið út líka, sem er nú bara nauðsynlegt svona stundum. En nú er víst gamanið búið og skólinn byrjaður með lestrinum ógurlega. Komin í lögfræðina í HÍ og farin að grúska í lagagreinum og tilheyrandi skemmtilegheitum. Mjög gaman. Allavega leggst þetta alveg ágætlega í mig só far. En við skulum heyra hvernig hljóðið verður í lok annar...

Lögfræðineminn

This page is powered by Blogger. Isn't yours?