<$BlogRSDURL$>

fimmtudagur, október 30, 2003

Ég held ég fari nú og safni í mótmælagöngu gegn óheiðarlegum leigubílstjórum.
Það er kominn tími til. Orðin afskaplega þreytt á að þeir reyni að ofrukka mig,
td. 20 evrur þegar gjaldið er aðeins 10, og að þurfa að þrasa endalaust til að fá
þá til að setja mælinn í gang. En þetta gerist iðulega og sérstaklega þegar ég
er einhversstaðar í námunda við bandaríska búsetu. Því hér ásala þeir sér óstað-
festum rétti til að svindla á könum, sem þeir rökstyðja líka (með sinni grísku lógík
að sjálfsögðu).
Já Chaniabúar eru nefnilega á móti bandaríkjamönnum, eða öllu heldur Natóhervellinum
hér í Souda sem er þéttskipaður könum. Allt í lagi, það hafa allir rétt á sínum
skoðunum EF að þeim fylgdi ekki svona mikil hræsni. Því í öðru andartakinu eru þeir
allir á móti og vilja herinn burt burt BUUUUURT!, en í því næsta kvarta þeir sárum
yfir því að þeir séu ekki nógu margir kanarnir. Því þeir vita hvaðan tekjur þeirra hér
í Chania koma yfir vetrarmánuðina. Vældu þessi ósköp þegar stríðið skall á og
kanarnir höfðu takmarkaðan útivistartíma eða þegar skipin (á leið inn í Persaflóa)
ákváðu að sigla framhjá Souda vegna hostility heimamanna. Fariði nú að gera upp
hug ykkar vinir mínir, segi ég nú bara. Með eða á móti, og standið við það. Nú svo
safnast þeir saman í mikil mótmæli fyrir utan völlinn. Ég meina hvað eiga vesalings
“hermannagreyin” að gera, sem eru bara lítil leiksoppapeð í þessu öllu saman?
Væri ekki betra að storma upp í ráðhús og atast í ráðamönnum?
En hvað veit ég, lítil ræfilstuska sem vill bara frið á jörð og að leigubílstjórar
hætti að svindla á mér...
(En eins og einn góður vinur minn sagði: “Anný, you are talking about the ideal world,
and we don´t live in that world” – Já það geturðu nú bókað með þessu attitúti...)

Ein fjúkandi vond...

miðvikudagur, október 29, 2003

Hvert þó í hoppandi!
Það á nú aldeilis margt að leggja á mitt litla líf. Eða hvað haldiði
að hafi komið trítlandi á móti mér eftir svefnherbergisgólfinu
þegar ég var að þrífa heima í gær? SPORÐDREKI!!! Og sveiflandi
sínum langa hala! Mér vægast sagt krossbrá og tók Afródítu,
sem ég sá að gerði sig líklega til að æða í´ann, og fleygði henni
út úr herberginu (hún ennþá í fílu út í mig) Veiddi kvikindið svo
varlega í krukku. Veit nú ekki til þess að þeir séu alvarlega eitraðir
hér, en var einhvernveginn ekki alveg til í að taka sénsinn (hef heyrt
að þeir gefi manni soldið nasty stungur). Svo nú er ég með
sporðdreka í krukku úti í porti heima. Gat ekki bara hent honum
(eða henni) út eins og hverju öðru kvikindi, gæti ekki sofið rólega
vitandi af honum einhversstaðar í næsta nágrenni (og í hefndarhug).
Og ekki skolað honum í klóstið, ætti alltaf von á því að hann kæmi
og klipi mig í rassinn (Skrímslið í klósettinu! – hefði kannski ekki
átt að horfa á þessa Stephen King mynd í gær). Svo hann er ennþá
í krukkunni, og ég komin með áhuggjur af því að hann sé orðinn svangur :)
Ætti kannski að spyrja Gerði systur hvort hún taki hann ekki bara með sér
heim, en nú lítur út fyrir að hún sé að flytja tvo hunda með sér til Íslands...

Annars er það að frétta héðan að túristarnir eru farnir, síðustu charter
flugin í þessari viku og þá fer að færast vetrarsvipur yfir Chania. Reyndar
hafa grikkirnir spáð áframhaldandi góðu veðri fram að jólum, og varðandi
veðurspána hafa þeir yfirleitt rétt fyrir sér, merkilegt nokk. Ef þeir til dæmis
segðu núna að það muni rigna 10 janúar, þá máttu vera nokkuð viss um
að það geri það. Svo ég er bjartsýn um að geta legið á ströndinni næstu
vikur.

Já og Kommúnistarnir farnir að mótmæla aftur, en þeim var bannað að
vera með usla yfir túristatímann. Held að stjórnvöld hérna hafi meira
að gera við að gefa út mótmælisleyfi en nokkuð annað. Það virðast allir
vera mótmælandi einhverju alltaf hreint. Sem er nú bara gott og blessað
finnst mér, það gerist sennilega ekkert án þeirra. Og svo eru þeir voðalega
duglegir að fara í verkföll hér, bensínstöðvar, leigubílar, doktorar...
Farin að halda að þeir stundi þetta til að fá smá frí. Kannski að það sem
við köllum helgi, kalli grikkir verkfall. Sem er nú bara gott og blessað líka,
alls ekki hollt að vinna of mikið, en ansi hart þegar sonur hennar Antoinette
fær gat á hausinn og engir læknar á vakt!

Bæ í bili...

Ps. Hvaðan ætli kvikindið hafi komið? Er það annars ekki alltaf þannig að
þar sem finnst einn, þá eru fleiri...?
(ég hefði virkilega ekki átt að horfa á Stephen King myndina...)

þriðjudagur, október 21, 2003

Góðan daginn!
Þvílíkur og annar eins hiti... Og heitir vindar frá Afríku. Voðalega
furðulegt veður hérna þessa daganna. En ég kvarta ekki á meðan
sólin skín.
Komu reyndar nokkrir rigningardropar á Sunnudaginn (í eins og 10
mínútur) þar sem ég sat úti í porti, svo ég færði þvottagrindina fulla
af þvotti (og sem við Vicky notum báðar – búum sko hlið við hlið) í
skjól. Vicky kemur út eftir smástund, lítur í kringum sig og segir: “Ó,
það hefur einhver nappað þvottinum okkar, nújæja, en Anný viltu te?”
Maður er orðin svo öllu vanur hér að voða lítið kemur manni á óvart
lengur...

Til dæmis fór ég með Vicky um daginn að kaupa símafaxtæki.
Fundum þetta svaka fína apparat í einni raftækjabúðinni, tókum það
heim og settum saman og tengdum samkvæmt leiðbeiningum, þar til
við sáum síðustu setninguna í bæklingnum: “Aðeins hægt að nota í
Austurríki og Þýskakandi!”.
Og viti menn, græjan virkaði ekki svo við tókum hana tilbaka orðalaust.
Sumir hlutir eru bara svona hér, og maður er alveg hættur að furða sig á
þeim. Átti til dæmis alveg von á því að sölumaðurinn spyrði Vicky hvort
hún gæti ekki bara hugsað sér að flytja til Austurríkis eða Þýskalands, svo
hún gæti notað símann...

Svo það er kannski alveg skiljanlegt að hún hafi ekki kippt sér upp við
það þó þvotturinn sé horfinn – ásamt þvottagrindinni (sem hann var
náttúrulega ekki því ég hafði bara fært hann til vegna veðurs).

En annað og áhyggjumeira efni er það að hún dóttir mín fjórfætt
hefur ákveðið að taka mig á orðinu varðandi atvinnumálin (skipaði
henni í síðustu viku að fara að vinna fyrir kattarmatnum) og er nú
farin að bera allan óskundann inn. Hún er – guði sé lof – svo skíthraædd
við fuglana (byrjar að jarma – og ég meina JARMA – þegar þeir fljúga yfir,
held hún hafi tekið það upp eftir geitunum) að hún lætur þá alveg eiga sig.
En er nú farin að koma inn með kakkalakkakvikindi í kjaftinum og leggja
þá við fætur mér sigri hrósandi. Ó guðmundur minn góður! Hvað er til
bragðs að taka? Og ég sem hef verið svo lukkulega laus við slíkan viðbjóð
hér. Held hún hafi algjörlega misskilið þetta eintal okkar þarna um daginn...

Kveðja Anný

laugardagur, október 18, 2003

Ég á ekki til eitt hreinasta og beinasta orð. Var að frétta að ég er greinilega
alveg út úr kú, ÞVÍ ég á ekki rafrænan tannbursta. Einhvernveginn barst tal
okkar Marks í gær að tannburstum (ekki einu sinni spyrja hvernig) og ég nú
orðin soldið áhyggjufull yfir þessu, því hann varð alveg ógurlega hneykslaður,
svo ég gerði smá könnun og kom í ljós að Vicky á líka rafrænan tannbursta!
Er þetta kannski eitthvað trend í Stóra Bretalandinu? Eða er ég sú eina í
heiminum sem er svona gamaldags? Á leiðinni í vinnuna labbaði ég framhjá
rafvörubúð og viti menn í glugganum var RAFRÆNN TANNBURSTI!!!
Þeir sem eiga rafrænan tannbursta plís réttiði upp hend!

Er enn soldið skjálfandi eftir strætóferðina í morgunn, sat við hliðina á skrímsli
alla leiðina (alvöru skrímsli; með vængi, svartan búk, rauðar stórar lappir og
RISA stungubrodd aftan úr sér) og ég æpti EKKI upp yfir allan strætó, og stökk
EKKI út um gluggann eins og ég hefði sennilega áður gert við slíkar aðstæður.
Held að staðreyndin hafi verið sú að ég var gjörsamlega stjörf af hræðslu frekar
en að mér hafi vaxið hugrekkið allt í einu...

Féll í gildruna hans Iliasar í gær og fór að plana með honum nýja staðinn, gera
fjárhagsplön og soleiðis (sem hann hafði að vísu minnstan áhuga á, ekki svo
skipulagður...). Lítur ágætlega út, og ég er bara svo veik fyrir svona bissnessplönum.
En ég er reyndar komin með far til Englands í lok Nóvember (bílfar) þar sem einn
kunningi minn ætlar að keyra heim, gæti komið sér ágætlega vel því þá get ég komið
við í París og náð í dótið mitt sem ég skildi eftir hjá Sophie í fyrra (bakpokinn var
svo þungur að ég skildi eftir helminginn af honum þar, en svo var restinni reyndar
stolið nokkrum dögum síðar, svo ég varð algjörlega bakpokalaus), og stokkið svo
út í London og tekið flugið þaðan heim. Held þetta sé bara hið ágætasta plan.

Bæ í bili...

fimmtudagur, október 16, 2003

Ég held það hljóti að standa “Krýsumál – open up to Anný” utan á básnum mínum. Kannski ekki að undra að ég hafi farið heim með einn dúndrandi í gærkvöldi... Fyrst kom Mark vaskvaðandi og hellti úr öllum sínum súpuskálum – vikuskammtur af sápuóperu. Fastir liðir; kærastan sem var fyrrverandi kærastan í síðustu viku (hélt reyndar alltaf fyrst að hann væri hommi...en var samt hárgreiðslukona á Englandi áður en hann kom hingað) en vill nú ólm giftast honum í hvelli, en svo hljóp sonurinn á brott til Aþenu í mótmælaskyni og þá flæktust tengdaforeldrarnir – tilvonandi? – í málið og hóta honum nú öllu illu OG ÉG VEIT EKKI HVAÐ OG HVAÐ EKKI.... Og svo er bíllinn í viðgerð, ennþá! (því hann er greinilega ekki búinn að fatta það sem ég er búin að fatta, að oft þýðir ekki að vera vara kurteis heldur æpa soldið duglega á Grikkina og þá gerast hlutirnir – það er ekkert dónalegt, þeir gera það sjálfir). Mark fór og um leið kom Jerry (sem er reyndar hommi) inn með aðra eins dramatík: Fjölskyldan í heimsókn frá Englandi og á öðrum degi sprakk allt í loftupp þegar hann fór að spyrjast fyrir um bróður sinn sem-hann-hefur-alltaf-vitað-að-hann-ætti-í-Kóreu-en-hefur-aldrei-hitt og pabbinn hvað nú vera helbera haugalygi og stjúpmamman í sjokki, og ÚFF!... Og bíllinn hans líka í viðgerð, ennþá!

Og eins og þetta væri ekki alveg dagskammturinn þá rakst ég á Ilias eftir vinnu. Ilias er fimmtíuogeitthvaðára lókali sem ég aðstoðaði við að opna veitingastað í vor. Hann teymdi mig inn á restaurantinn, skellti kaffibolla á nefið á mér og tilkynnti að hann væri sko með plön fyrir mig í vetur! Já, hann langar að opna annan restaurant, eða eitthvað eða hvað finnst mér? “Eigum við að hafa Live music eða...?” Sagði honum strax að mín plön væru að fara heim fyrir jól. “Jájá, plön eru bara plön og verða áfram plön, en þú ert samt ekkert að fara neitt”. Hann hefur gjörsamlega og algjörlega enga trú á því að ég fari héðan NOKKURNTÍMA...

Og ökklinn öskrandi þegar ég komst loks heim, því fyrr um daginn hafði ég farið upp á endurkomu, og til þess að “athuga nú hvort liðurinn væri í lagi” þurfti doktorinn sko að teygja hann allan og tosa, svo að hann væri nú alveg örugglega ekki í lagi þegar ég staulaðist út. Veit ekki alveg hvaða lógík þetta er, en hún meikar allavega engan sens í mínum (þykka) haus.

Home Sweet Home... Og Afroditi (dóttir mín fjórfætt og loðin) stóð á orgninu: “MAAAATUUUUR!!!”
Ég góndi bara á hana og sagði henni að fara að byrja að vinna fyrir honum, í stað þess að liggja oná hreina þvottinum mínum!
-en gaf henni svo heila dós því ekki dugir minna oní þetta óargardýr!

Lifið Heil (og passið ykkur á göturæsum – þau ráðast á mann...)

Anný – sem ÆTLAR á ströndina í dag og ÆTLAR til Íslands í desember!

Ps. Hvernig á ég eiginlega að setja inn myndir?.... HRAFNHILDUUUUUUR??? HJÁLP!

miðvikudagur, október 15, 2003

Ég held ég þurfi að fara að læra meiri grísku, svo þeir hætti að svindla á mér í leigubílunum.
Lærði stafrófið stuttu eftir komuna hingað, og ég get stolt sagt að ég kann það ennþá :)
Spark í rassinn núna! No exjúses...

þriðjudagur, október 14, 2003

Komin á seinni vaktina...
Fór reyndar ekki á ströndina í gær, var búin að gleyma umbúðunum á löppinni. Ekkert brotið í þetta skiptið, snéri mig bara soldið duglega og skemmdi einhverja vöðva. Hvar ætlar þetta að enda? Var sko að flýta mér yfir götuna áður en kæmi grænt fyrir bílana, en náði svo aldrei yfir fyrir vikið, heldur dregin af tveimur túristaræflum upp úr ræsinu og skóbblað inn í leigubíl og upp á slysó - en samt ekki fyrr en annar túristinn hafði farið fyrir mig yfir á skrifstofuna sem ég vinn á til að ná í veskið mitt, og náttúrulega brotið lykilinn í skránni... Þurfti því að hafa upp á Vicky til að hafa upp á Victori (fasteignasali sem ég er að vinna með) til að hafa upp á lásasmið til að redda hurðinni...upp á slysó og túristagreyin þurftu að punga út fyrir taxanum því veskið læst inni.. Úff!
En ökklinn á batavegi, fór meira að segja með Gerði systur í smá fjallgöngu á sunnudaginn...

Já Gerður komin út aftur eftir tveggja mánaða dvöl á Íslandi. Gat bara ekki afborið hreina loftið heima lengur... Nei, kom reyndar aftur til að vera hjá hundinum sínum þar til hún getur flutt hann heim. Hljómar þetta nokkuð undarlega?... Já, það er alvöru hundur!

Gott í bili...

Ps. Rúsamúsin hún Hrafnhildur búin að setja upp gestabók fyrir mig (ekki er ég svona tæknilega sinnuð), svo nú VERÐIÐI að skrifa í hana!


mánudagur, október 13, 2003

Halló allir saman. Það er kannski kominn tími til að láta heyra aðeins í sér...
Er ennþá á Krít í sólinni, búin að vera hér í rúmt ár núna (ætlaði reyndar aðeins að vera í mesta lagi nokkra mánuði...). Virðist vera stökk hérna, því hvað sem ég reyni að gera plön um að fara héðan, þá virðist það bara breytast endalaust. Held það sé vitrast að gefast upp og játa sig sigraða fyrir sjarmerandi Grikklandinu. Nei, en ég ætla allavega að vera hér í smástund í viðbót. Plan nr. 68: Koma heim fyrir jól. Var búin að plana að koma heim núna í byrjun september, en ákvað svo á síðustu stundu að vera hér allavega í 2-3 mánuði í viðbót (fékk skilaboð að heiman að það væri soldið kalt þar núna, brrrr...).

Þegar ég kom hingað varð ég ofboðslega heilluð af landi og þjóð. Eftir að hafa verið hér í nokkurn tíma varð ég alveg svakalega pirruð út í land og þjóð. Núna er ég farin að sættast við land og þjóð, (farin að botna betur í bullinu hér og farið að þykja voðalega vænt um þessa litlu eyju).
Orðin svo innleidd í lífið hér að ef eitthvað einhvern daginn gengur snuðrulaust fyrir sig, án nokkurra vandkvæða, þá fæ ég ofboðslegt panic attack. Því ef að stóla má á eitthvað hér á bæ, þá er það ekki að hlutirnir gangi upp, án þess að láta stór og stærri og stærstu brúkorð falla, og nokkrar vikur líða. Enda fundu grikkir upp orðið “chaos” og virðast gera allt hvað þeir geta til að halda í heiðri þeirri ringulreið sem þeir eru örugglega best þekktir fyrir. Ekkert og algjörlega ekkert system hér, allavega ekki í þeirri mynd sem við hin þekkjum það. Fékk næstum því sjokk um daginn þegar ég þurfti að fara upp á spítala í myndatöku (brákaði á mér ulnliðinn), og mér var rétt númer til að bíða eftir að röðin væri komin að mér að fara inn. SYSTEM???? Ég var númer 57 og þegar ég spurðist fyrir var 53 næst. Létti um hjartað og varð rólegri þegar ég heyrði 76 kallað upp á eftir 54. It was just too good to be true.

Er ekki annars alveg eðlilegt að strætóinn sem þú ert að ferðast með kúpli inn á næstu bensínstöð til að taka bensín? Eða að leigubílstjórinn stoppi í 10 mínútur til að spjalla við vininn sem hann hittir á leiðinni að áfangastað. Síga, síga (slowly, slowly)... Það gerist ekkert einn tveir og þrír ef þú heldur það. Hér er aðaláhersla lögð á að LIFA lífinu, og ekki að stressa sig á smámunum. Þegar öllu er á botninn hvolft þá eru það bara 3 hlutir sem skipta máli: Food, drink and love (held þeir meini samt “sex” – og fara reyndar ekkert ofboðslega leynt með það), og allt annað eru smámunir.

Hvar annarsstaðar ryðst fólk fyrir framan þig í röðum? – n.b. það er ekkert athugavert við það og alls ekki dónalegt ef þú heldur það. Hvar annarsstaðar kveikir læknirinn sér í sígó (sem hann fékk hjá þér því hann var búinn með sínar) á meðan hann er að vefja á þig gipsinu? Hvar annarsstaðar telja þeir 76 á eftir 54?
Hvar annarsstaðar setja þeir “innakstur bannaður” skilti beggjavegna götunnar og keyra svo báðar leiðir? Og hvar annarsstaðar parkerar bíllinn á undan þér á miðri götu, svo þú þarft að bíða þolinmóður fyrir aftan þar til viðkomandi hefur lokið erindi sínu?

Stundum held ég að ég hafi svei mér þá lent á einhverri annarri plánetu þegar ég tók ferjuna hingað frá Aþenu fyrir ári.

En ég fíla þetta bara mjög vel hérna þrátt fyrir allt, og er ennþá hérna þrátt fyrir allt, og verð örugglega áfram hérna þrátt fyrir allt og öll plön....

Farin á ströndina... Bæjó
Anný

ps. Voru Sókrates og Plató örugglega grískir? Ef svo þá ætla ég nú að glugga aðeins betur í þeirra fræði, they probably got us all fooled....


Two men, dressed in armor, walk into a hotel and ask for a room for two (k)nights...
-enskur húmor

This page is powered by Blogger. Isn't yours?